Á sínum yngri árum starfaði Jan við ýmis áhugaverð störf. Hann var sjómaður til nokkurra ára og ferðaðist um heiminn sem slíkur, starfaði seinna sem kafari og svo köfunarkennari, slökkviliðsmaður og enskukennari. Árið 1995 flutti Jan með eiginkonu sinni og þriggja mánaða syni sínum, Adam, til Gautaborgar þar sem hann hóf nám í hljóðtækni við Háskólann í Gautaborg. Að námi loknu flutti fjölskyldan aftur til Íslands þar sem Jan hóf svo störf sem hljóðtæknimaður hjá Ríkisútvarpinu, þar sem hann starfaði í 11 ár.
Með mikla tæknilega þekkingu, djúpan skilning á hljóði og næmt eyra var Jan talinn með færustu tæknimönnum landsins.
Á fjölbreyttum ferli sínum hefur Jan unnið með stórum nöfnum tónlistarheimsins, á borð við Foo Fighters og Iron Maiden, ásamt stórum hluta íslensku tónlistarsenunnar. Samhliða því á hann einnig myndarlegan feril að baki sér sem þáttagerðamaður og hafa útvarpsþættir eftir hann meðal annars verið nýttir sem kennsluefni í þáttagerð hjá BBC.