Egill Ólafsson - Tu Duende

Ég var þess ótrúlega heiðurs aðnjótandi að fá að koma að gerð nýjustu plötu Egils Ólafssonar, Tu Duende/El Duende, í hlutverki upptökutæknimanns. Platan var tekin upp af Ásmundi Jóhannssyni og mér sjálfum, með viðbótar upptökum sem fóru fram í Fireland Studio hjá Matta Kallio. Matti var einnig pródúser og listrænn stjórnandi plötunnar.

Framleiðsla plötunnar var heldur magnað ferli, sem hófst á Hótel Laugarbakka í febrúar 2022. Ásmundur, Matti og ég mættum á laugardegi og breyttum veislusal hótelsins í risastórt open-floor hljóðver og settum allt upp í undirbúningi fyrir komu tónlistarmannanna næsta dag, svo hægt væri að hefjast strax handa við upptökur á plötunni. Upptökur stóðu yfir í heila viku og allan þann tíma var kvikmyndagerðarmaðurinn Jón Karl Helgason viðstaddur að skjóta myndefni í heimildarmynd um framleiðslu plötunnar, sem nú hefur þróast yfir í að verða að allsherjar heimildarmynd um Egil sjálfan.

Platan er tvískipt: Tu Duende og El Duende. Tu Duende var tekin upp á Hótel Laugarbakka. Platan er sungin á spænsku og ensku af Lisette Hernandez Pigueiras, í útsetningi Argimiro Sánchez. Argimiro spilaði einnig á gítar, en ásamt honum var Eyþór Gunnarsson á píanói og hljómborði, Peter Axelsson á kontrabassa og Einari Scheving á trommum og percussion. Á nokkrum lögum bættust við Sigurður Flosason á flautu og alto saxófón, Jóel Pálsson á tenór og sópran saxófón og Kjartan Hákonarson á trompet og flugelhorni. Einnig bættust við Auður Hafsteinsdóttir á fiðlu, Gréta Guðnadóttir á fiðlu, Þórunn Ósk Marínósdóttir á víólu og Bryndís Halla Gylfadóttir á selló. Blásturinn og strengirnir voru teknir upp í hljóðverinu okkar.

El Duende hlutinn er fullkominn spegill á Tu Duende hlutann, nema hvað að hann er allur fluttur á íslensku og öll lög eru þar í annarri útsetningu, frábrugðinni útsetningu Argimiros af Tu Duende hluta plötunnar. Á El Duende eru bæði nýjar og gamlar upptökur (gömul lög, endur-masteruð fyrir útgáfuna). Á nýju upptökunum syngja bæði Egill og Ellen Kristjánsdóttir, Eyþór Gunnarsson spilar á píanó, Einar Scheving á trommur, Valdi Kolli á kontrabassa og Björn Thoroddsen á gítar. Nýju lögin voru öll tekin upp í Kaiku Sound hljóðverinu.

Platan var svo loks mixuð af Matta Kallio og masteruð af Svante Forsbäck í Chartmakershljóðverinu í Finnlandi.

Platan kom út í ótrúlega fallegri tvöfaldri vínylútgáfu rétt fyrir jólin 2022, en nú er platan loksins streymanleg á Spotify.

Hér að neðan eru nokkrar ljósmyndir sem ég skaut af upptökuferlinu, bæði á Laugarbakka og í hljóðverinu okkar.

Next
Next

Anne-Mari Kivimäki á Íslandi